1

Landið var gróið, hlýtt, frjósamt og auðugt af öllu sem hægt var að hugsa sér. Ávextir uxu, grasið var grænt, sauðféð feitt og fjöllin full af hráefnum.

Þessu landi var stjórnað af lítilli þjóð sem var bundin þéttum böndum. Þetta voru fáar fjölskyldur sem eyddu tíma saman. Þetta var ekki konungsríki eða álíka. Æðsti stjórnandi var valinn hverju sinni með samþykki allra meðal hinna fáu fjölskyldna og hafði mikil völd.

Undir þessum fjölskyldum var stór stétt fólks sem sá um alla vinnu við að rækta, uppskera og safna saman gæðum landsins og færa fjölskyldunum. Þetta var viðtekið fyrirkomulag. Hinar fáu fjölskyldur voru viðurkenndar fyrir manngæði og yfirburði og það var talið sjálfsagt að þjóna þeim með vinnu og skattgreiðslum. Í því fólst engin fyrirhöfn.

Vegna gæða landsins var mikil eftirsókn í gæði þess. Þetta þýddi tvennt: Annars vegar að ítrekaðar árásir voru gerðar til að reyna ná í löndin, og hins vegar að mikið af umkomulausu fólki streymdi inn í þau í von um betri lífsgæði sem þjónar þeirra sem þar réðu.

Innstreymi fólks sem vildi búa í löndunum bjó til mikið framboð af fólki til að þjóna, vinna og manna herlið til að verja löndin. Vegna herliðsins þurftu fjölskyldurnar sem réðu löndunum ekki að fara sjálfar út á vígvöllinn: Sjálfboðaliðar sáu um að manna herinn og hrinda árásum. Þetta gekk yfirleitt vel og löndin héldust nokkuð óbreytt undir stjórn hinna fáu fjölskyldna.

Ítrekaðar árásir þýddu hins vegar að nokkuð var framleitt af stríðsföngum. Lengi vel voru þeir einfaldlega leiddir til aftöku en smátt og smátt myndaðist sú hefð að gera þá að þrælum og setja þá í vinnu.

Þegar þrælunum fór að fjölga fór að koma þrýstingur á hina frjálsu undirsáta að vinna meira. Það var erfitt að keppa við vinnuafl þræla sem fengu litla hvíld og lítið að borða.

Um þetta leyti var að stíga fram á sjónarsviðið framtíðarleiðtogi hinna fáu fjölskyldna: M.

Allir voru sammála um að hún ætti að verða næsti leiðtogi. Hennar biðu samt erfið verkefni. Átti að takmarka innstreymi þræla til að halda almenningi við efnið? Átti að auka enn við fjölda þræla til að framleiða meira? Átti að gera hinn órólega almenning að þrælum til að minnka væntingar þeirra til lífsins?

Að auki var von á fleiri innrásum vegna vaxandi velmegunar á svæði Maríu. Ætti að hefja útrás og ná fleiri svæðum í þjónustu hinna fáu fjölskyldna?

M vissi af þessum áskorunum en þáði engu að síður að taka við öllum völdum, sem drottning og drottnari.